Flóttinn frá Reykjavík / seinni hluti / Hugleikur Dagsson
Description
Kisi er snúinn aftur, úrræðagóður og morðóður sem aldrei fyrr, en í fjórðu bókinni um eineygðu hetjuna glímir hann enn ásamt félögum sínum við „ástandið“. Við sögu koma meðal annars andsetinn krullhærður píslarvottur, skilningslaus útgefandi og undirheimar Íslenskrar erfðagreiningar sem ef til vill geyma lykilinn að framtíð þessarar hrjáðu þjóðar.
Á fyrsta hestinum sat málningarrúlla sem málaði yfir veggjakrot. Á öðrum hestinum sat byggingarkrani sem byggði ljót hús á röngum stöðum. Á þriðja hestinum sat lélegur borgarstjóri. Ef höfuð hans var skorið af uxu tvö ný í staðinn.
Á fjórða hestinum sat Davíð Oddsson og honum fylgdi eyðilegging af epískum toga. Nú er komið að skuldadögum. Uppgjör kattarins við krullhærða varmennið kemur þó merkilega á óvart…
Bækurnar um Kisa hafa vakið hrifningu fólks á öllum aldri en Hugleikur Dagsson má kallast ókrýndur myndasöguprins íslensku þjóðarinnar. Hann hefur ennfremur séð um útvarpsþætti, gert vídeóverk, sinnt myndlist og skrifað leikrit. Verk hans hafa víða hlotið lof, bæði hér heima og erlendis en til eru þeir sem álíta myndasögur hans barnalegt krot. Slík viðhorf eru gerð afturreka með þessari nýjustu bók hans sem er af mörgum talin hans besta til þessa.
„Svo má ekki gleyma seinni hluta Eineygða kattarins Kisa eftir Hugleik Dagsson þar sem kreppan birtist í gallsúrum vísindahryllingi.“
Árni Matthíasson / Morgunblaðið
Höfundar: Hugleikur Dagsson