Orphic Oxtra - Orphic Oxtra / CD
Description
Orphic Oxtra sendir hér frá sér sína fyrstu plötu en platan kom út á mánudaginum 01.11.10, sem þótti afspyrnu hentugur dagur þar sem dagsetningin myndar samhverfu (þ.e. það má lesa dagsetninguna áfram og á afturábak).
Platan ber einnig hið fagra og óræða nafn hljómsveitarinnar en það nafn hefur verið tungubrjótur allra þeirra sem á vegi bandsins hafa orðið. Orphic Oxtra spilar lífræna og dansvæna tónlist undir sterkum balkönskum áhrifum sem er þó heimabrugguð í Reykjavík af stórum hópi samsærismanna sem eiga það sameiginlegt að stunda nám í hljóðfæraleik við LHÍ eða FÍH.
Tónsmíðar Orphic Oxtra eru hljómmiklar flugeldasýningar framandi tóna og takta og um leið spennandi og glænýtt efni. Þótt lögin minni á mið- og austur-evrópsk þjóðlög, klezmerstandarda og sígaunatónlist eru þau frumsamin í Orphíska tónsmíðaverkstæðinu, þar sem ríkir samyrkjustefna og allir taka þátt. Orphic Oxtra semja og flytja tónlist sem vekur líkamleg viðbrögð hjá fólki.
Hún hefur dáleiðandi dansáhrif á flesta þá sem á hana hlýða nema þá sem þegar eru í dái en jafnvel þeir grúva með í hljóði. Þess má geta að töluverðar tafir urðu á framleiðslu plötunnar þar sem starfsmenn verksmiðjunnar í Indlandi dilluðu sér ákaft við tónlist Orphic en voru svo á endanum sannfærðir um að platan væri skemmd því að hökt fannst í einu laginu.
Það hökt var svo engin skemmd heldur eingöngu gífurlega þétt spilamennska sem kom Indverjunum í opna skjöldu.
1. Ekki núna
2. Búm tja
3. Orfic Sketsjar
4. Melodick
5. Hey
6. Adrian
7. Núna
8. Smeceno horo
9. Traðk